_MG_0608.jpg

LÍFRÆN FORM Í BYGGINGARLIST

 

Munið þið þegar við fjölluðum um grunnformin í tengslum við módernismann? Grunnformin eru nánast andstæðan við lífræn form þar sem lífrænu formin hafa mjúkar línur. Við sjáum lífræn form til dæmis oft út í náttúrunni, ólíkt grunnformunum eða geómetrískum formum sem hafa oftar en ekki beinar línur.   

Margir arkitektar hafa notað náttúruna sem innblástur við hönnun bygginga sinna. Art Nouveau stefnan sem hófst fyrir meira en 120 árum byggðist m.a. á því að hanna byggingar út frá náttúrulegum eða lífrænum formum. Byggingar í stílnum minna oft á vaxandi blóm sem tengir anga sína upp og springur út. 

Antoni Gaudí (f. 1852 l. 1926), spænskur arkitekt, var mjög flinkur að hanna byggingar þar sem má sjá fullt af lífrænum formum og flæðandi línum. Kirkjan La Sagrada Familia er ein af frægustu byggingunum hans en hún var svo flókin að það er enn verið að byggja hana. Gaudi var mjög framúrstefnulegur og frumlegur á sínum tíma en hann dó fyrir næstum því hundrað árum síðan.

Það eru þó fleiri en Gaudí sem hafa hannað byggingar sem einkennast af lífrænum formum og línum. Ein þeirra er kona að nafni Zaha Hadid en hún er einn þekktasti arkitekt okkar tíma. Hún dó árið 2016 ung að aldri eða 66 ára gömul. Hönnun hennar hefur unnið til margra verðlauna en byggingarnar hennar eru líkt og byggingar Gaudí flestar óvenjulegar í útliti. Hér má finna myndir af byggingum eftir Zaha Hadid.

Víða um Evrópu má finna byggingar þar sem lífræn form eru áberandi. Sömu sögu er eflaust ekki hægt að segja á Íslandi, eða hvað? Munið þið eftir einhverjum byggingum á Íslandi þar sem lífræn form eru áberandi?

 

Til kennara:

Í þessari umfjöllun hef ég stuðst við myndefni af erlendum byggingum þar sem útlit byggingana er einkennandi fyrir lífræn form. Á Íslandi er ekki að finna margar byggingar sem einkennast af lífrænum formum en þau má engu að síður finna ef vel er gáð, oftar en ekki innandyra. Til að mynda eru rými oft brotin upp með bogadregnum veggjum o.s.frv.. Sem dæmi má nefna baðherbergi í einu þekktasta húsi Högnu Sigurðardóttur hér á landi, einbýli að Garðarflöt 1. En Högna var ein af fyrstu íslensku kvenn arkitektunum á Íslandi. Síðan má ekki gleyma að skoða byggingar frá öðru sjónarhorni en úr augnhæð. Þegar við skoðum Laugardalslaug ofan frá sjáum við til dæmis mikið af lífrænum formum. Eins má oftar en ekki finna lífræn form í landslagshönnun.

 

Verkefni:

Nemendur hanna byggingu úr leir, sem hefur ekki beinar línur. Mikilvægt er að taka fram að byggingin þarf ekki endilega að vera hús, þetta getur líka verið skáli, skemmtigarður eða jafnvel híbýli fyrir dýr. 

Uppskrift af leir:

2 bollar hveiti
1 bolli salt
1 tsk. Cream of tartar (ekki nauðsynlegt)
 2 msk. olía
 2 bollar heitt vatn
 matarlitur

Aðferð: 

Öllu nema vatni og matarlit blandað saman í skál. Gott er að hita vatnið í hraðsuðukatli. Matarlitur settur út í vatnið og vökvanum blandað við þurrefnin. Passa þarf að geyma leirinn í lokuðu íláti eða plastpoka.