TORFHÚS

 

Þegar þið hugsið til þess hvernig Íslendingar bjuggu í gamla daga, hvernig hús eða híbýli koma fyrst upp í huga ykkar?

Fyrir meira en þúsund árum var ekki farið að byggja úr steini, marmara eða múrsteinum á Íslandi líkt og í Evrópu. Á Íslandi var byggt úr efnivið sem fannst í náttúrunni svo sem torfi, grjóti og tré (eða rekavið). Torfið var afar gott byggingarefni þar sem það einangraði vel fyrir kluda. Torfhúsin breyttust og þróuðust bæði í skipulagi og útliti. Torfbærinn eins og við þekkjum hann í dag er því afurð langrar þróunar. Torfbærinn var ekki endilega allur byggður á sama tíma heldur var hann í stöðugri þróun. Vitið þið hvað torf er?

Burstabærinn sem er yngsta gerð torfhúsa er líklega sú tegund torfbæja sem flestir hafið séð eða komið inn í. Gaflinn snýr fram að hlaði og húsunum raðað upp hlið við hlið. Innan frá tengjast þau með göngum. Hafið þið séð eða komið inn í torfhús? Af hverju haldið þið að það séu ekki fleiri torfhús til á Íslandi í dag?

Skipulag innandyra:

Þið hafið eflaust heyrt um eða séð myndir af baðstofum í gamla daga. Baðstofan var aðal íverustaður íbúa bæjarins, þar var sofið, borðaði og unnið. Fjósabaðstofan virkaði þannig að húsdýrin (s.s. kýr) voru geymd undir baðstofunni. Hlýjan af dýrunum nýttist þannig sem kinding fyrir mannfólkið. Eins og þið eflaust vitið var ekki kynding eins og við þekkjum hana í dag í gamla daga. Það var til dæmis ekkert rafmagn. Hvernig haldið þið að fólkið hafi lesið á kvöldin? Og hvernig ætli lyktin hafi verið í baðstofunni þar sem dýrin voru öll í hálfgerðu fjósi fyrir neðan?

En hvernig ætli eldhúsin hafi verið? Eldhúsin á þessum tíma voru kölluð hlóðaeldhús. Þar var settur pottur upp á stór grjót. Til að hita pottinn var notað þurrkað sauðatað. Vissuð þið að sauðatað er kindaskítur? Á þessum hlóðum (grjóti) var maturinn eldaður og þvotturinn þveginn. Stundum var kjöt hengt fyrir ofan hlóðina en með tímanum reyktist það. Hafið þið t.d. smakkað hangikjöt?

Klósett og hreinlæti. Haldið þið að það hafi verið baðherbergi í torfbæjunum? Það var ekkert heitt vatn í boði, þess vegna var ekki eins auðvelt fyrir fólk að baða sig og þvo þvott eins og það er fyrir okkur í dag. Það var heldur ekkert sjampó eða sápa þannig að fólk þvoði sér upp úr keytu. Vissu þið að keyta er þvag úr kúm?

Íslenski torfbærinn er einstakur, hann fellur vel að náttúrunni, aðallega vegna þess að hann var byggður úr náttúrulegum efnum. Margir hafa orðið fyrir innblæstri frá torfhúsunum og hannað nútímalegri útgáfu af því. Aðal munurinn er kannski að í dag höfum við fleiri efni til að byggja hús úr.

Verkefni:

Nemendur hanna sitt eigið torfhús. Húsið hefur hvorki rafmagn né vatn. Þeir  þurfa því að huga að því hvernig fólk fær vatn til að drekka, hvar það fer á snyrtinguna og hvar það þvær fötin sín. Eins þurfa nemendur að hugsa um með hvaða hætti náttúruleg birta kemur inn í húsið. Nmendur eru hvattir til að huga að því hvort það sé hægt að nýta bygginguna og umhverfið í ræktun til dæmis á matjurtum og grænmeti.

Nemendur hafa gert teikningar af hugmyndum sínum. Þá er gott að skipta blaðinu í 2-4 reiti. Ein teikning sýnir húsið t.d. utan frá og önnur ofan frá. Í þessu verkefni hafa nemendur verið hvattir til að sýna skipulag innandyra með sneiðmynd. Þannig gefst þeim meðal annars tækifæri til að sýna hversu margar hæðir húsið hefur, hvernig ljós flæðir inn í bygginguna ásamt því að útskýra hvernig kinding virkar o.s.frv..

Frekari fróðleik um þróun torfbæjarins og gamla byggingarhætti má finna hér.

Myndir frá Glaumbæ má finna hér.