HÁHÝSI

Skuggahverfið í Reykjavík

Háhýsi:

Mörg ykkar hafið eflaust komið inn í háhýsi. Vitið þið hverskonar byggingu við köllum háhýsi? Háhýsi eru með mörgum hæðum og yfirleitt hönnuð fyrir skrifstofur, verslanir, hótel eða jafnvel sem íbúðarhúsnæði. Þar sem þau eru há (fleiri en 10 hæðir) er mikilvægt að þau séu byggð úr sterku byggingarefni.

Þegar farið var að framleiða mjög langa og sterka stálbita var farið að byggja háhýsi. Eitt af fyrstu háhýsunum í heiminum þar sem burðarvirkið var úr stáli, var 10 hæðir og byggt í Bandaríkjunum fyrir næstum því 130 árum, meira um það hér.

Þegar talað er um háar byggingar er annarsvegar talað um háhýsi og hinsvegar skýjakljúfa. Háhýsi eru yfirleitt byggingar sem eru 10 hæðir eða meira en skýjakljúfar eru yfirleitt 50 hæðir eða hærri. Í dag er Burj Khalifa í Dubai (Arabíu) hæsta bygging í heiminum. Hún er 830 metrar á hæð eða eins og rúmlega 11 Hallgrímskirkjur. Hún er 160 hæðir og því augljóslega um skýjakljúf að ræða. Hver haldið þið að sé hæsta bygging á Íslandi?

Turninn á Smáratorgi í Kópavogi er 77,6 metrar eða næstum því eins og 50 meðal stórar manneskjur. Turninn sem er 20 hæðir er hæsta bygging Íslands. Einu sinni var Hallgrímskirkja hæsta bygging á Íslandi. Hún er 74,5 metrar, aðeins lægri en turninn.

Sum háhýsi eru mjög áberandi í umhverfinu. Sem dæmi er Hallgrímskirkja mun hærri en allar byggingarnar í kringum hana, hún er í öðrum hlutföllum en hinar byggingarnar í nærumhverfinu? Vitið þið hvað orðið hlutföll þýðir? En nærumhverfi?

Stundum eru háhýsi byggð fyrir íbúðarhúsnæði, við þekkjum slíkar byggingar yfirleitt sem blokkir eða fjölbýlishús. Þar búa mjög margir íbúar undir sama þaki. Þar eru yfirleitt lyftur af því að annars þyrfti maður að labba upp rosalega margar tröppur. Það góða við að byggja blokkir er að ef að það er lítið landsvæði til að byggja á er hægt að byggja margar íbúðir á litlum reit, af því að maður byggir upp í loft. Í stórborgum er oft lítið pláss til að byggja húsnæði fyrir allt fólkið sem á heima þar. Þess vegna var svo frábært að geta byggt háhýsi með mörgum hæðum og þar af leiðandi mörgum íbúðum fyrir margar fjölskyldur.

Í Reykjavík er ekki neitt rosalega mikið pláss eftir í miðbænum til að byggja á, það er meðal annars ástæðan fyrir því að við erum að byggja háhýsi við sjóinn. Hafið þið séð þessi háhýsi? Þetta hverfi kallast Skuggahverfið. Afhverju ætli það sé?

 

Til kennara:

Umfjöllunin um háhýsi er yfirleitt mjög skemmtileg þar sem börnin tengja öll við viðfangsefnið. Eftir að hafa fjallað um háhýsi er skemmtilegt að spjalla um afhverju við byggjum háhýsi, hvað nemendum finnist almennt um þau svo sem útlitslega, eru þau til dæmis einsleit?

Áður nemendur byrja á verkefninu er mikilvægt að minna þá á hvað það sé sem heldur háhýsum uppi. Eins er mikilvægt að minna nemendur á að háhýsi hafi margar hæðir, helst yfir 10. Það er áskorun að byggja háhýsi þar sem gæta þarf vel að því að undirstaðan sé traust. Það þarf því að vera gott jafnvægi á milli lóðréttra og láréttra flata. Öll háhýsi hafa gólf. Gólfið er lárétt og hjálpar byggingunni að vera stöðug.

 

Verkefni:

Í þessu verkefni byggjum við háhýsi úr kapla kubbum. Hér má sjá video af krökkum sem byggja háhýsi á mismunandi hátt úr kapla kubbum.

Gott að hafa í huga hversu stórt háhýsið sé, til þess þarf að ákveða og afmarka grunnflötinn.