MÓDERNISMI
Tímabil einkennast oftar en ekki af ákveðnum stílbrögðum sem koma meðal annars fram í byggingum. Hvernig byggingin er byggð, úr hvaða efnum, ásamt útlitslegum einkennum hennar gefa okkur vísbendingu um frá hvaða tíma hún er. Þannig getum við lesið í byggingar og staðsett þær í sögu- og samfélagslegu samhengi þar sem ákveðnir þættir endurspegla oftar en ekki tækni- og samfélagslegar forsendur á ólíkum tímaskeiðum.
Fyrir rúmlega 100 árum eða í kringum 1900 varð til stíll sem er kallaður módernismi. Það sem var einkennandi fyrir byggingar hannaðar í þessum stíl var einna helst ný efnisnotkun en gler, stál og steinsteypa urðu áberandi byggingarefni. Byggingar frá þessum tíma eru stílhreinar eða lausar við skraut og prjál sem höfðu einkennt fyrri alþjóðlega byggingarstíla. Viðhorf listamanna og þar á meðal arkitekta gagnvart listaverkinu hafði snúist og þeir orðnir frjálsari undan gömlum reglum og gildum.
Ef þið hafið ferðast um Evrópu hafið þið eflaust séð ansi skrautlegar byggingar, torg og gosbrunna mögulega í klassískum- eða barrokk stíl. Þið hafið eflaust ekki séð slíkar byggingar á Íslandi vegna þess að á þeim tíma eða fyrir meira en 200 árum síðan var ekki farið að byggja með þessum hætti á Íslandi.
Þegar farið var að nota steypu í byggingar breyttist margt en steypa er einmitt efnið sem arkitektar á tímum módernismans voru hrifnir af að nota. Detta ykkur einhverjar bygginar á Íslandi í hug sem byggðar eru úr steypu?
Hrein form eða grunnform ásamt láréttum og lóðréttum línum voru áberandi hjá módernistunum. Það var hentugt að nota steypu í byggingar sem voru einfaldar í útliti. Þekkið þið grunnformin í tvívídd, ferning, ferhyrning, hring og þríhyrning? En í þrívídd, tening, kúlu, keilu, sívaling og píramída?
Hér að neðan skoðum við byggingar sem eiga það allar sameiginlegt að vera hannaðar eftir 1900 á Íslandi, byggðar úr steypu og hafa sterka formfræðilega ásýnd. Flest ykkar hafa eflaust séð þessar byggingar, jafnvel komið inn í þær.
Til kennara:
Til að byrja með er gaman að spjalla um og velta fyrir sér hvernig nútímalegar byggingar líta út. Hvað skilgreinir þær frá öðrum byggingum? Eru þær öðruvísi í laginu? Eru þær úr öðru efni? Jafnvel öðruvísi á litinn?
Módernismann má tengja við umfjöllun um grunnformin, hvað þau heita og hvernig þau líta út bæði í tvívídd og þrívídd.
Við hverja mynd hér að neðan má finna fróðleik sem nýta má í umfjöllum um byggingarnar. Umfjöllunin þarf ekki að vera flókin, síður en svo. Myndirnar tala sínu máli.
Verkefni: ef einingakubbar eru til í skólanum er gaman að leggja stutt verkefni fyrir nemendur þar sem þau eru beðin um að hanna sína eigin byggingu úr grunnformunum. Byggingin þarf að hafa fjórar hliðar og a.m.k. eina hæð. Á meðan verkefninu stendur er tilvalið að skoða kubbana sem nemendur eru að nota og rifja upp hvað formin heita.
Nánar um módernisma á Íslandi og formfræði:
Meira um Einar Sveinsson má finna hér.
Umfjöllun um Melaskóla í Steinsteypuöldinni má finna hér.
Vef um formfræði má finna hér.
Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970, þar sem torfhúsum, steinhúsum, timbur- og steinsteypuhúsum eru gerð skil eftir byggingarstíl má finna hér.