Guðjón Samúelsson
Guðjón Samúelsson (f. 1887 - l. 1950) var einn af fyrstu lærðu arkitektum Íslendinga. Margir þekkja hann frá því að hann gegndi starfi sínu hjá embætti húsameistara ríkisins frá 1920-1950 (en í því fólst að hanna opinberar byggingar svo sem skóla, sjúkrahús og kirkjur). Þegar Guðjón kemur heim til Íslands eftir nám við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn hafði margt breyst í íslenskri húsagerðarlist. Eftir stórtækan bruna í miðbæ Reykjavíkur 1915 hafði bann verið lagt við byggingu timburhúsa í þéttri byggð til dæmis í miðbænum, en fyrir þann tíma voru steinsteyptar byggingar ekki mjög algengar á Íslandi. Hafið þið komið inn í timburhús?
Byggingar eftir Guðjón er að finna víðsvegar um landið og bera þær margar hverjar keim af stíl hans. Þrátt fyrir að Guðjón hafi komið úr akademísku umhverfi var hann fylgjandi hugmyndum þjóðernis-rómantíkur. Hann var talsmaður þess að sveitir landsins ættu að sameina þjóðlegan byggingarstíl með því að flétta saman það sem þótti fagurt í gamla daga við nútímann. Margar af byggingum Guðjóns minna því á eitthvað sem má finna í íslenskri náttúru svo sem stuðlaberg. Hafið þið séð stuðlaberg?
Vitið þið hvað þjóðernis-rómantík er? Það er til dæmis þegar lögð er sérstök áhersla á sérkenni landsins. Hvað finnst ykkur til dæmis vera sér íslenskt? Hafið þið séð byggingar á Íslandi sem bera þess merki að hafa verið hannaðar undir íslenskum áhrifum?
Hvað varðar efnisnotkun er stundum talað um “skóla Guðjóns Samúelssonar” þar sem að hann var fyrirmynd þeirra sem fengust við húsagerðarlist í landinu á sínum tíma. Guðjón var ekki hrifin af sleiktu yfirborði steypunnar sem var oft á tíðum kostnaðarsöm sökum þess hve oft þurfti að mála hana. Guðjón lagði því til að nota mætti íslenskar steintegundir til að prýða og slétta úr yfirborði steypunnar. Hvítt kvars mátti finna á Íslandi ásamt kalksteini og hrafntinnu. Þessi efni taldi Guðjón að væru ódýrari en þau innfluttu þar sem að við höfðum aðgang að þeim í náttúru landsins. Ljósum og dökkum steintegundunum var blandað saman og kornunum þrýst á yfirborð steypunnar. Þess má geta að silfurbergi var einnig bandað við steinmulninginn sem einkenndi ytri áferð hússins, þar af leiðandi glitraði húsið þegar sólinn féll á það (Guðjón Samúelsson, 1933:76). Þjóðleikhúsið er gott dæmi um framþróun þessarar tækni þar sem það er fyrsta bygging Guðjóns sem notast við klæðningu íslenskra bergtegunda.
Verkefni:
Nemendur hafa kynnst nokkrum af þekktustu byggingum Guðjóns Samúelssonar. Nemendur velja sér eina af byggingum Guðjóns og túlka hana á sinn hátt til dæmis úr Legó eða með teikningu.
Nánar um Guðjón Samúelsson:
Umfjöllun um Guðjón Samúelsson í Steinsteypuöldinni má finna hér.
Umfjöllun um hugmyndir Gujóns Samúelssonar um Skólavörðuholtið má finna hér.
Umfjöllun í Tímanum (03.05.1950) um Guðjón Samúelsson má finna hér.