TIMBURHÚS

 

Áður fyrr voru timburhús ekki svo algeng á Íslandi, líklega vegna skorts á skóglendi. Það var ekki fyrr en fyrir um 150 árum sem timburhús urðu vinsælli húsakostur enda af mörgum talin töluvert betri kostur en torfhúsin. Timburhúsin voru byggð í ólíkum stílum en flest áttu þau sameiginlegt að vera formfögur með vel staðsetta, stóra glugga og hlýleg og björt herbergi. Fyrstu timburhúsin komu mörg tilsniðin til landsins í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Tilsniðið hús þýðir að húsið var flutt til landsins í pörtum, ósamsett, svolítið eins og IKEA-húsgögn. Tilsniðin hús voru oft kölluð katalóghús þar sem hægt var að panta þau upp úr katalóg, sem er eins konar sölubæklingur. Mest allt timbur í íslensku húsin kom erlendis frá, til dæmis frá Noregi, og var flutt hingað til lands með skipum.

Lesa má um hina ýmsu byggingarstíla sem einkenndu útlit, gerð og einkenni timburhúsa á Íslandi í uppafi 20. aldarinnar hér.