FÚNKIS STÍLL
Fúnkisstíll / Notagildisstefnan
Munið eftir tímabilinu þar sem arkitektar voru búnir að fá nóg af skrauti og prjáli? Tímabilið sem við þekkjum sem módernisma, þar sem byggingarstíll hafði breyst til muna, útlits- og efnislega. Gler, stál og steinsteypa urðu áberandi byggingarefni og útlit bygginga var mun stílhreinna en áður.
Um 30 árum síðar eða upp úr 1930 barst nýr stíll til Íslands sem var orðin þekktur í Evrópu, hann kallast fúnksjónalismi eða notagildisstefnan. Fúnksjónalisminn var ekki svo ólíkur módernismanum að því leiti að funksjónalistarnir aðhylltust stílhreina hönnun og hönnuðu byggingar úr svipuðum efnum. Við þekkjum byggingar í þessum stíl yfirleitt út frá ákveðnum útlitslegum einkennum svo sem staðsetningu glugga (horngluggar), flötu þaki og breyttu skipulagi innandyra (sem var oft á þann veg að svefnherbergin voru í sér álmu, eldhús og stofa svo nálæg hvor öðru). Þetta skipulag lagði jafnframt áherslu á að sólarljós skini inn á heimili fólks á daginn þannig að íbúar fengju sem mest sólarljós.
Í upphafi voru fúnkishúsin ómáluð en það hefur eflauast ekki hentað íslenskum aðstæðum nógu vel. Í dag eru flest þessara húsa máluð, með hraunpússningu, skeljabrotum eða steinmulningi. Slíka áferð má sjá á mörgum íslenskum húsum þar sem íslensk steinefni svo sem Kvars, Silfurberg og Hrafntinna voru notuð í múrhúð að utan. Það má segja að notkun á steypu og múrhúðun hafi verið einkennandi fyrir fúnksjónalismann á Íslandi en í nágrannalöndum okkar til dæmis Danmörku voru önnur byggingarefni notuð, svo sem múrsteinar.
Fúnksjónalisminn hélt áfram að þróast og breytast hér á landi eftir 1930. Við þekkjum stílinn ef til vill betur sem módernisma eftir að alþjóðlegra áhrifa fór að gæta um og eftir 1950. Nánari upplýsingar um stefnuna er að finna í bókinni Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970.
Til kennara:
Til að byrja með er skemmtilegt að ræða orðið fúnkis við nemendur. Flestir hafa ekki heyrt orðið áður. Á meðan myndefni af fúnkis-húsunum er skoðað má spurja nemendur út í eftirfarandi einkenni stílsins svo sem:
-Takið þið eftir einhverju óvenjulegu þegar þið horfið á gluggana? Hafið þið séð hornrétta glugga áður? Hvað þýðir orðið hornrétt?
-Takið þið eftir einhverju óvenjulegu við þökin á fúnkis-húsunum? Berið þau til dæmis saman við önnur hús, hvað er öðruvísi? Nemendur eru oft í svolítin tíma að átta sig á því að þakið sé flatt.
-Hvað finnst ykkur um lit og áferð á húsunum? Hafið þið séð hús með svona klæðningu? Hvaða hús?
-Hafið þið séð Hrafntinnu, Kvars eða Silfurberg? Hérna er tilvalið að minnast á hvers vegna þessar bergtegundir eru ekki lengur notaðar í klæðingu á húsum.
Verkefni:
Nemendur fá það verkefni að byggja/hanna sitt eigið fúnkis-hús úr Legó. Þar sem nemendur hafa haft um 30 mín. til að byggja er mikilvægt að taka fram að best sé að húsið verði ekki of stórt, því minna því betra og meiri líkur á því að nemendur nái að ljúka við verkefnið. Á meða nemendur eru að byggja er mikilvægt að rifja upp með þeim helstu einkenni fúnkis-húsa svo sem staðsetningu glugga, flöt þök, svalir o.s.frv..
Nánar um fúnkis stíl:
Umfjöllun í Morgunblaðinu um stefnuna má finna hér.
Umfjöllun um steinuð hús má finna hér.
Umfjöllun um Garðarstræti 37 má finna hér.
Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970, þar sem torfhúsum, steinhúsum, timbur- og steinsteypuhúsum eru gerð skil eftir byggingarstíl má finna hér.